Barnaheill taka þátt í vitundarvakningunni Meinlaust
Frá árinu 2022 hefur Jafnréttisstofa haldið úti vitundarvakningunni Meinlaust. Vitundarvakningunni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um mörk og samþykki.
Frá upphafi hefur Jafnréttisstofa unnið með félagasamtökum og/eða jaðarhópum til að uppræta og vekja okkur til umhugsunar um það öráreiti sem ólíkir hópar fólks verða fyrir í daglegu lífi.
Veist þú hvað öráreitni er?
Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir það jaðarstöðuna áþreifanlega.
Öráreitni er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingarnar. Þess vegna getur verið erfitt að koma auga á öráreitni og jafnvel erfiðara að benda gerendum á að hegðun þeirra hafi skaðleg áhrif.
Við hjá Barnaheillum leggjum vitundarvakningunni lið og tókum saman sögur frá börnum til að vekja athygli á þeim birtingarmyndum öráreitni sem þau verða reglulega fyrir. Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á birtingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.
Lesa má nánar um vitundarvakninguna á heimasíðu Jafnréttisstofu.
Athugasemdir eins og þær sem sýndar eru hér neðar eru gerðar daglega, þeim er kannski ætlað að vera meinlausar – þær eru það bara ekki.