CSAPE – frá vitund til aðgerða
Að takast á við kynferðislega misnotkun á börnum í Evrópu með forvörnum og samvinnu
Eitt af hverjum fimm börnum í Evrópu hefur orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi – allt frá óviðeigandi kynferðislegum skilaboðum til líkamlegs kynferðislegs ofbeldis. Á hverri sekúndu er efni um kynferðislega misnotkun á börnum dreift, selt og skoðað á netinu. Þessar skelfilegu staðreyndir leiddu til samstarfsátaks um alla Evrópu. Samstarfi sem var ætlað að takast á við og leitast við að koma í veg fyrir, kynferðislega misnotkun á börnum með fræðslu og samvinnu.
Hið tveggja ára verkefni fékk nafnið Child Sexual Abuse Prevention and Education (CSAPE) og hófst árið 2023 og stendur til lok árs 2024, fjármagnað af innri öryggissjóði Evrópu (ISF).
Saga CSAPE og niðurstöður
Fimm Evrópulönd; Finnland, Ísland, Grikkland, Albanía og Bosnía og Hersegóvína, tóku höndum saman með það sameiginlega markmið að efla forvarnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum. Hópurinn hefur þjálfað fagfólk, veitt börnum kynfræðslu og þróað fræðsluefni sem miðar að því að styrkja börn, foreldra og fagfólk til að berjast gegn þessu útbreidda vandamáli á markvissan hátt.
Niðurstöðu þessarar vinnu mátti sjá á vel heppnaðri málstofu sem haldin var í Brussel 30. október 2024. Fulltrúar frá löndunum fimm, ásamt sérfræðingum frá fræðasamfélaginu, Evrópusambandinu og Save the Children í Evrópu, komu saman til að deila innsýn í málaflokkinn og framförum í verkefninu. Um 50 manns sóttu málstofuna í Brussel en þátttakendur á netinu voru um 240 frá yfir 20 löndum.
Virtir fyrirlesarar töluðu á málstofunni og deildu sérþekkingu sinni. Willy Bergogné, framkvæmdastjóri Save the Children og fulltrúi Evrópusambandsins og Floriana Sipala, framkvæmdastjóri innra öryggis og aðgerða gegn hryðjuverkum lögðu áherslu á mikilvægi sameiginlegra aðgerða til að vernda réttindi barna. Theresa Ryan-Rouger, yfirverkefnastjóri hjá Missing Children Europe og verkefninu CESAGRAM EU, flutti erindi um alþjóðlegar áskoranir vegna kynferðislegrar misnotkunar á börnum á netinu. Dr. Olena Ivanova, háttsettur rannsakandi við Tropical Institute LMU, fjallaði um stöðu kynfræðslu í Evrópu og lykilhlutverk hennar í forvörnum. Dr. Miriam Schuler og Eliza Schlinzig frá Institute of Sexology and Sexual Medicine við Universitätsmedizin Berlin veittu mikilvæga innsýn í málefni ungmenna sem hafa kynferðislegan áhuga á yngri börnum.
Mikilvægur hluti af málstofunni var pallborð með ungum fulltrúum úr ráðgjafanefndum barna allra fimm þátttökulandanna.
Unga fólkið veitti innsýn og kom með hugleiðingar um áskoranir og áhættur sem það stendur frammi fyrir á netinu. Þau lögðu áherslu á það mikilvæga hlutverk sem kynfræðsla gegnir við að hjálpa ungu fólki að feta sig í þessum áskorunum og bentu á ábyrgð fullorðinna til að styðja og vernda þau. Þátttaka þeirra undirstrikaði mikilvægi þess að hafa ungt fólk með í umræðum og ákvarðanatökuferlum sem tengjast öryggi þeirra og vellíðan. Fulltrúar Íslands í pallborðinu voru Daníel Pétursson og Eva Olivia Mikaelsdóttir sem vörpuðu góðu ljósi á stöðu íslenskra ungmenna varðandi málefnið.
Málstofan undirstrikaði nauðsyn fjölþættrar nálgunar á samvinnu til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun á börnum. Áhersla var lögð á forvarnir í gegnum fræðslu, snemmtæka íhlutun með því að þjálfa fagfólk til að þekkja fyrstu merki um hættur, að styðja við þverfaglegt samstarf óháð landamærum, að valdefla ungt fólk með því að virkja það beint og nýta tækni til að takast á við ofbeldi á netinu með nýstárlegum lausnum.
Árangur verkefnisins
CSAPE verkefnið hefur náð mikilvægum árangri í að vekja athygli, fræða hagsmunaaðila og styrkja bæði fagfólk, börn og ungmenni í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun á börnum. Samstarfið sýnir að sameining þvert á landamæri og fræðigreinar geti leitt til verulegra framfara við að standa vörð um réttindi og velferð barna. Með því að breyta vitund í aðgerðir getum við skapað öruggari framtíð fyrir öll börn í Evrópu.