Ashoka mikli
Ashoka mikli (brahmi: 𑀅𑀲𑁄𑀓, Aśoka; 304 f.Kr.–232 f.Kr.) var indverskur keisari Maurya-veldisins sem réði yfir næstum öllu Indlandi frá 269 til 232 f.o.t.[1] Hann var barnabarn stofnanda keisaradæmisins, Chandragupta Maurya. Ashoka breiddi út búddisma og undir hans stjórn stækkaði ríkið mikið og náði frá Afganistan í vestri að Bangladess í austri. Hann ríkti yfir stærstum hluta Indlandsskaga nema hluta Tamil Nadu, Karnataka og Kerala. Höfuðborg ríkis hans var borgin Pataliputra (í Magadha, nú Patna).
Ashoka herjaði á ríkið Kalinga (nú Odisha) og lagði það undir sig árið 260 f.o.t. Samkvæmt tilskipunum hans snerist hann til búddisma eftir að hafa horft upp á mannfallið í Kalingastríðinu sem var sagt hafa leitt til dauða 100.000 manna og hrakninga annarra 150.000. Hann er þekktastur fyrir súlur Ashoka víðs vegar um Indland þar sem tilskipanir hans eru áletraðar, fyrir að senda búddamunka til Srí Lanka og Mið-Asíu og fyrir að reisa minnismerki á stöðum sem tengjast ævi Gautama Buddha.
Fyrir utan tilskipanirnar byggist þekking okkar á ævi Ashoka á heimildum sem eru mörgum öldum yngri, eins og Ashokavadana frá 2. öld og Mahavamsa frá Srí Lanka. Merki Indlands er súluhöfuð Ashoka sem sýnir fjögur asíuljón. Nafnið Aśoka merkir á sanskrít „án sorgar“ eða „án sársauka“. Í tilskipunum hans er hann nefndur Devānāmpriya („elskaður af guðunum“) og Priyadarśin („sá sem lítur alla með kærleika“). Asókatré (Saraca indica) er kennt við hann og kemur fyrir í Ashokavadana.
Tilvísanir
- ↑ Chandra, Amulya (14. maí 2015). Ashoka | biography – emperor of India. Afrit af uppruna á 21. ágúst 2015. Sótt 9. ágúst 2015.