ISO 8601
ISO 8601 er staðall frá alþjóðlegu staðlastofnuninni ISO sem fjallar um hvernig tákna skuli dagsetningar, tíma innan dags, dagsetningu með tíma og tímabil.
Staðalinn er hægt að nota alls staðar sem sem máli skiptir að koma dagsetningu á framfæri án þess að það fari milli mála hvað er átt við, t.d. í tölvusamskiptum eða vöruframleiðslu, hvort sem um tölvutækar, prentaðar eða skrifaðar upplýsingar er að ræða.
Mörg ríki styðjast við staðalinn í meira eða minni mæli, ekki síst í Evrópu.
Dæmi um gildar ISO 8601 dagsetningar, með og án tíma:
- 2008-09-25
- 20080925
- 2008-09 (þ.e. september, en 200809 er hins vegar ógilt enda má misskilja það!)
- 2008-W09 (þ.e. vika 9)
- 2008W09 (þ.e. vika 9)
- 2008-W09-1 (þ.e. fyrsti dagur viku 9, mánudagur)
- 2008W091 (þ.e. fyrsti dagur viku 9, mánudagur)
- 2008-009 (þ.e. dagur 9)
- 2008009 (þ.e. dagur 9)
- 2008-09-25 18:05 (staðbundinn tími)
- 2008-09-25T1805
- 2008-09-25T1805Z (með tímabeltinu UTC, sem á við um Ísland)
Ártal er ávallt skrifað sem fjórir tölustafir, og núll (0) er notað til að fá rétta lengd á númeri mánaðar, dags og viku.
Auk þess tiltekur staðallinn að vikan hefjist á mánudegi (sem er jafnframt fyrsti dagur vinnuviku), hvernig vikunúmer skulu reiknuð og fleira.
Staðan á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Íslenskur staðall IST EN 28601:1992 tekur e.t.v. á þessum málum hér á landi, en óljóst er hver raunveruleg staða staðalsins er.
Dagatöl á Íslandi, prentuð og á vefnum, hefjast þannig ýmist á mánudegi eða sunnudegi. Þetta getur valdið ruglingi, sérstaklega ef vikunúmerin koma fram. Orsök misræmisins er kristin hefð, en einnig má ætla að það gæti áhrifa frá hugbúnaði upprunnum í Bandaríkjunum.